Erlent

Leiðtogar afneita vandanum

Hungursneyð virðist vera að breiðast út um mið- og austanverða Afríku. Tuttugu milljónir manna eru sagðar í hættu vegna næringarskorts. Undanfarnar vikur hefur athygli heimsbyggðarinnar beinst að Afríkuríkinu Níger en þar er ástandið afar slæmt. Í nýrri skýrslu samtakanna Famine Early Warning Systems, sem sagt er frá á vefsíðu BBC, er því hins vegar haldið fram að tuttugu milljónir manna á sjö landa belti sem teygir sig frá Malí austur til Sómalíu séu í verulegri hættu vegna vannæringar. Bent er á að íbúar þessara landa eigi það sameiginlegt að treysta á uppskeru af ökrum sem vökvaðir eru með regnvatni eða fljótum sem flæða yfir bakka sína. Þegar úrkoma bregst er neyð yfirvofandi. Samhliða matargjöfum er því nauðsynlegt að aðstoða ríkin við áveitugerð úr fljótum á borð við Níger og Níl. Það er hins vegar mikið áhyggjuefni að leiðtogar sumra þessara landa neita að horfast í augu við vandann. Mamadou Tandja, forseti Nígers, sagði í samtali við BBC í vikunni að hungursneyðin væri einfaldlega sjónarspil hjálparsamtaka sem með áróðri reyndu að afla sér meira fjár. "Nígermenn eru vel haldnir og það er ekkert tiltökumál þótt uppskera bregðist á stöku stað vegna engisprettna, það er alvanalegt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×