Erlent

Flókin staða í norskri pólitík

Ágreiningur um utanríkismál gæti orðið til þess að vinstriflokkarnir í Noregi næðu ekki að mynda ríkisstjórn að loknum þingkosningunum í haust enda þótt þeir næðu meirihluta. Þegar rúmur mánuður er í norsku þingkosningar eru leikar að vonum teknir að æsast. Þingmenn Íhaldsflokksins sækja nú hart að Jens Stoltenberg, leiðtoga Verkamannaflokksins, og saka hann um að gefa ekki skýr svör um afstöðu sína til utanríkismála. Verkamannaflokkurinn er stærsti flokkur landsins og gæti myndað vinstristjórn með Sósíalistaflokknum og Miðflokknum fái þeir til þess umboð. Þeir eru hins vegar nú í stjórnarandstöðu. Í viðtali við Aftenposten í gær gagnrýni Inge Lønning, þingmaður Íhaldsflokksins, Stoltenberg harkalega fyrir þögn sína um utanríkisstefnu hugsanlegrar vinstristjórnar. Hún benti á að flokkarnir sem myndu eiga aðild að stjórninni væru í grundvallaratriðum ósammála um utanríkismál: Sósíalistar og miðflokksmenn eru andvígir aðild að Evrópusambandinu og leggjast gegn þátttöku í friðargæslu í Afganistan Sósíalistar vilja auk þess að Noregur dragi sig úr NATO. Verkamannaflokkurinn er hins vegar á öndverðum meiði í öllum þessum málum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×