Erlent

Tímaspursmál um árás

Hryðjuverk í fjármálahverfi Lundúna er einungis tímaspursmál, að mati James Hart, sem stýrir lögreglunni þar. James Hart segir í viðtali við Financial Times að hryðjuverkamenn séu hrifnir af fjármálamiðstöðvum hins vestræna heims og finnist þær fullkomin skotmörk. Þar sé hægt að valda skaða sem hafi víðtæk áhrif. Hann fullyrðir að hryðjuverkamenn hafi kynnt sér aðstæður í fjármálahverfi Lundúnaborgar með áherslu á frægar byggingar, stórfyrirtæki og merka staði á svæðinu. Tilgangurinn sé að vekja sem mesta athygli, valda sem mestum skaða og sem mestu mannfalli. Hart segir það ekki spurningu um hvort heldur hvenær árás verði gerð á fjármálahverfið og bendir á að það hafi verið vinsælt skotmark írska lýðveldishersins, IRA, þegar herferð hans stóð sem hæst. Hann telur enn fremur að aðeins um helmingur fyrirtækjanna í fjármálahverfinu sé undir hryðjuverkaárás búinn. Fæst hafi þau látið gera áætlanir um viðbrögð sem séu þó dýrmætar þegar ósköp dynja yfir. Talið er að helmingur þeirra fyrirtækja, sem var lokað tímabundið í New York eftir árásirnar 11. september 2001, hafi aldrei verið opnuð aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×