Innlent

Mótmælendur komnir til Reykjavíkur

Mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði eru nú flestir komnir til Reykjavíkur að sögn Birgittu Jónsdóttur, talsmanns mótmælenda í Reykjavík. Fólkið hefur verið að tínast frá Vaði í Skriðdal síðustu dagana að sögn lögreglu á Egilsstöðum en þar hafa þeir haldið til í um tvær vikur eftir að þeim var gert að yfirgefa tjaldbúðir sínar í landi Valþjófsstaða við Kárahnjúka. Hópur mótmælendanna fór norður fyrir land að sögn Ólafs Páls Gunnarssonar, eins mótmælenda, sem staddur var á Mývatni þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Annar hópur fór hins vegar suður fyrir land áleiðis til Reykjavíkur að sögn Birgittu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort mótmælendum verður vísað úr landi að sögn Ragnheiðar Böðvarsdóttur, forstöðumanns stjórnsýslusviðs Útlendingastofnunar. Erindi þess efnis barst frá Sýslumanninum á Eskifirði eftir að mótmælendurnir fóru inn á byggingarsvæði álvers Alcoa á Reyðarfirði í síðustu viku. Ákvörðunar um hvort orðið verður við beiðninni er að vænta á allra næstu dögum að sögn Ragnheiðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×