Erlent

Kafbátasjómönnum bjargað

Björgun rússneska smákafbátsins AS-28 tókst giftusamlega í gær og bjargaðist öll sjö manna áhöfnin. Hann var dreginn að landi til borgarinnar Petropavlosk á Kamtjaskaskaga snemma í gærmorgun. Kafbáturinn festist í netum og neðansjávarloftneti sem notað er til að fylgjast með skipaumferð um svæðið á fimmtudaginn og því voru sjómennirnir sjö fastir á hafsbotni í heila þrjá daga. Aðstæðurnar í kafbátnum voru heldur hráslagalegar og hitastigið ekki nema rétt um fimm gráður. Sjómönnunum var sagt að klæðast hitagöllum og liggja og reyna að anda eins létt og þeir gátu sem þeir og gerðu meðan þeir biðu á milli vonar og ótta meðan björgunarmenn reyndu allt hvað þeir gátu til að bjarga þeim í kappi við tímann enda er talið að súrefnisbirgðir kafbátsins hefðu ekki dugað nema rétt um hálfan sólarhring í viðbót. Vyatsjeslav Milasjevskí, 25 ára gamall skipstjóri kafbátsins, stóð lengi stoltur við landganginn og heilsaði að hermannasið eftir að kafbáturinn hafði verið dreginn í land. Mátti þó greina bros á annars fölu andliti hans. Þegar blaðamenn spurðu hann svo hvernig honum liði var svarið stutt og laggott: "ágætlega". Eftir mikla fagnaðarfundi við fjölskyldur sínar var áhöfnin flutt á spítala þar sem ástand þeirra var kannað. Eiginkona skipstjórans sagðist bæði hafa grátið og dansað af gleði þegar fréttist af giftusamlegu björguninni. Breskur Super-Scorpio kafbátur, sem er fjarstýrður, var notaður til þess að skera á loftnetið og netadræsurnar sem héldu AS-28 pikkföstum á strandstað. Sergei Ivanov, varnarmálaráðherra Rússlands, þakkaði í kjölfar björgunarinnar breskum og bandarískum björgunarmönnum fyrir veitta aðstoð. Hann sagði þá hafa gengið hratt og örugglega til verks og sýnt mikla fagmennsku. Athygli og gagnrýni hefur vakið að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur nær ekkert tjáð sig um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×