Erlent

Blóði drifin helgin að baki

Upplausnarástand virðist ríkja í Írak og ekki verður séð að hernámsliðið hafi nokkra stjórn á landinu. Í það minnsta 170 manns hafa týnt lífi í sjálfsmorðssprengjuárásum undanfarna viku. Á meðan búa landsmenn sig undir að draga Saddam Hussein fyrir dóm en það vekur jafnframt ótta um að enn frekari átök blossi upp. Í gær bönuðu sjálfsmorðsprengjumenn 22 í fjölmörgum árásum í höfuðborginni Bagdad og nágrenni hennar. Ein sprengjan sprakk á skrifstofum þar sem kosningar haustsins eru undirbúnar og þar fórust sex manns. Al-Kaída í Írak birti strax yfirlýsingu þar sem samtökin lýstu ábyrgð á hendur sér þar sem kosningarnar "væru ekki í samræmi við vilja Guðs." Í annarri árás hentu uppreisnarmenn tveimur líkum á götu og skutu síðan lögreglumenn sem huguðu að líkunum. Mannskæðasta árás helgarinnar var hins vegar gerð við sjíamosku í bænum Musayyib, skammt suður af Bagdad. Þar kveikti sjálfsmorðssprengjumaður á vítisvél sinni nærri olíubíl sem sprakk í loft upp með þeim afleiðingum að í það minnsta níutíu manns dóu og 150 slösuðust. Al-Kaída hefur einnig sagst bera ábyrgð á þeirri árás. Aðeins ein hryðjuverkaárás hefur kostað fleiri mannslíf síðan Saddam Hussein var hrakinn frá völdum vorið 2003, hún var framin í bænum Hillah í febrúarlok en þá biðu 125 manns bana. Yfir 170 manns hafa fallið fyrir hendi hryðjuverkamanna í Írak undanfarna viku og er skemmst að minnast ódæðisins á miðvikudag þegar 26 börn voru myrt með sprengju. Svo virðist sem uppreisnarmenn séu að breyta um aðferðir því flestar gagnaðgerðir lögreglu eru miðaðar við bílsprengjuárásir en ekki fótgangandi sprengjumenn. Dómari við dómstólinn sem fjallar um afbrot Saddams Hussein greindi frá því í gær að einræðisherrann fyrrverandi verði ákærður fyrir fjöldamorð á 150 sjíum árið 1982. Þetta verða fyrstu formlegu ákærurnar sem Saddam eru birtar og verði hann fundinn sekur gæti hann verið dæmdur til dauða. Óttast er að réttarhöldin muni reita stuðningsmenn Saddams enn frekar til reiði með þeim afleiðingum að hryðjuverk færðust enn í aukana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×