Erlent

Rove ræddi um Plame við blaðamenn

Hart er sótt að Karl Rove, helsta ráðgjafa George W. Bush Bandaríkjaforseta, þar sem grunur leikur á að hann hafi í pólitísku skyni afhjúpað útsendara leyniþjónustunnar CIA í samtali við blaðamenn. Sumarið 2003 ritaði Joseph Wilson, fyrrverandi starfsmaður utanríkisþjónustunnar, grein í New York Times þar sem hann sagði rökstuðning stjórnvalda fyrir innrásinni í Írak mjög veikan. Árið 2002 fór hann til Afríkuríkisins Níger, að eigin sögn að beiðni Dicks Cheney varaforseta, til að kanna ásakanir um að Saddam Hussein hafi ætlað að kaupa þar úran. Hann fann ekkert sem renndi stoðum undir að þær ásakanir ættu við rök að styðjast en engu að síður hélt Bush hinu gagnstæða fram í stefnuræðu sinni í janúar 2003. Fljótlega eftir að greinin birtist, eða 8. júlí 2003, skrifaði blaðamaðurinn Robert Novak grein þar sem framburður Wilsons var gerður ótrúverðugur með því að halda því fram að Valerie Plame, starfsmaður CIA og eiginkona Wilsons, hefði að eigin frumkvæði fyrirskipað ferðina. Opinber rannsókn hófst í kjölfarið enda er lögbrot að greina frá nafni leyniþjónustumanna. Nafn Rove hefur nokkrum sinnum verið nefnt sem möguleg uppspretta lekans en hann hefur jafnan neitað því, til dæmis í viðtali við CNN í fyrra. Í nýjasta tölublaði Newsweek eru birtar tölvupóstsendingar frá því rétt áður en grein Novaks kom út á milli Matt Cooper, blaðamanns Time, og Rove þar sem Rove segir að "eiginkona Wilsons" hafi lagt á ráðin um Nígerferðina, án þess þó að nefna hana á nafn. New York Times birti síðan á föstudaginn grein þar sem vitnað var í nafnlausan heimildarmann sem staðfesti að Rove og Novak hefðu rætt um Plame í síma rétt áður en hún var afhjúpuð. Þar er því hins vegar haldið fram að símtölin hafi verið að frumkvæði Novaks og Rove hafi einungis staðfest þær upplýsingar sem hann bjó yfir, ekki látið honum þær í té. Málið þykir óþægilegt fyrir ríkisstjórnina enda er Rove einn nánasti samstarfsmaður forsetans. Því hefur ekki verið svarað hvort Bush hafi vitað um samskipti Rove við blaðamennina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×