Erlent

15 hafa látist í flóðum í Rúmeníu

Að minnsta kosti 15 manns hafa látist í flóðunum í Rúmeníu sem gengið hafa yfir að undanförnu. Þá hafa 12 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín vegna flóðanna. Miklar rigningar hafa verið í landinu síðustu tvær vikur. Samkvæmt innanríkisráðherra landsins hafa um tuttugu þúsund heimili eyðilagst í flóðunum, þar af 16 þúsund bóndabýli. Samkvæmt nýjustu tölum eru 230 hverfi án rafmagns og hafa samgöngur raskast mjög þar sem yfir 400 brýr hafa eyðilagst. Yfir eitt þúsund hermenn taka nú þátt í björgunaraðgerðum og hefur herinn lag til fjölda flugvéla og þyrla til að auðvelda björgunarstarf. Yfir 90 þúsund dýr hafa drepist í flóðunum og er nú unnið hörðum höndum við að koma í veg fyrir að sjúkdómar breiðist út. Kostnaður vegna flóðanna er gríðarlegur en í maí sl., þegar flóð gekk yfir vesturhluta landsins, kostaði það ríkið tæplega 500 milljónir Bandaríkjadala sem jafngildir um 33 milljörðum íslenskra króna. Skemmdir að þessu sinni af völdum flóða eru taldar mun meiri og má áætla að kostnaður verði að minnsta kosti tvöfalt meiri. Rúmenía er eitt fátækasta ríki Evrópu. Alls búa þar um 20 milljónir manna og eru meðallaunin rétt yfir 100 dollarar á mánuði sem nemur um 6500 krónum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×