Lífið

Hringferð Eggerts lokið

Hringferð Eggerts Skúlasonar er lokið en á síðustu þremur vikum hefur hann hjólað eina 1400 kílómetra til styrktar samtökunum Hjartaheill. Eggert er stoltur af afrakstrinum og þó sérstaklega hraðametinu, 70 kílómetra hraða á klukkustund í grennd við Vík í Mýrdal. Eggert naut liðstyrks margra góðra manna á ferð sinni um landið, þar á meðal fótboltakappans Eiðs Smára, Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra. Og Eggert kveðst eiga margar eftirminnilegar stundir úr ferðalaginu, t.d. þegar Auddi og Pétur úr Strákunum á Stöð 2 komu til móts við hann í dag. „Ég bað Pétur um að pissa á sig fyrir mig en honum var ekki mál. Hann reyndi en hann gat það ekki. Það var æðislegt,“ segir Eggert og bætti við að það að hjóla í rokinu sé líka eftirminnilegt. Maður verði nefnilega hrikalega pirraður. Það hafði þó ekki mikil áhrif á garpinn sem hélt ótrauður áfram, sama hvernig viðraði. Aðspurður hvort næsta skref væri Tour de France svaraði Eggert að hann hjólaði stundum sömu vegalengd og þeir á einum degi - hann væri bara aðeins lengur en þeir. Þar að auki væri hann ekki í eins flottum galla. Eggert sagðist þó alveg treysta sér í spandexgallann, enda kominn í hörkuform, en hann bíður nú spenntur eftir að smella sér á vigtina þegar hann kemur heim.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.