Tíska og hönnun

Eins og saumaður utan um mig

"Í fataskápnum mínum kennir ýmissa grasa en það er einn kjóll sem stendur upp úr sem mér finnst skemmtilegur. Það er sumarkjóll með vatnaliljum á sem ég keypti í Hennes og Mauritz í London fyrir tveim árum," segir María en það var ekki hlaupið að því að kaupa kjólinn. "Hann var ekki til í minni stærð. Það var einn til í númer 42 en ég nota yfirleitt númer 38. Ég keypti hann samt og fór með hann til saumakonu þegar ég kom heim sem minnkaði hann fyrir mig. Nú er hann eins og hann hafi verið saumaður utan um mig."

"Ég nota kjólinn ekkert voðalega mikið enda er þetta kjóll sem maður notar á góðviðrisdegi til að fara í garðveislu, brúðkaup eða eitthvað þvíumlíkt," segir María sem er dálítið fatafrík.

"Ég er frekar mikið fyrir föt en ég kaupi yfirleitt mikið í einu og mjög sjaldan. Ég er alls ekki mikið fyrir merki eða með dýran smekk. Þegar ég sé falleg föt þá kaupi ég þau -- hvort sem það er á flóamarkaði eða einhvers staðar annars staðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×