Erlent

Ófriðarský yfir Arnardal

Átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglu við upphaf G8-fundarins í Gleneagles í Skotlandi í gær. Flytja þurfti fólk á sjúkrahús og talsverð eignaspjöll voru unnin. Það fór á þann veg sem margir höfðu óttast, róstur og ringulreið settu mestan svip á upphaf leiðtogafundar sjö helstu iðnríkja heims og Rússlands sem hófst í gær í Gleneagles í Skotlandi. Strax í gærmorgun tók hópur uppivöðslusamra mótmælenda að láta ófriðlega í bænum í Stirling, rúma tuttugu kílómetra frá Gleneagles, en þar gista um 5.000 stjórnleysingjar og andstæðingar hnattvæðingar. Mölvuðu þeir rúður kyrrstæðra bíla og köstuðu grjóti að lögreglu. Leggja þurfti nokkra lögregluþjóna á sjúkrahús og voru 60 manns handteknir fyrir dólgslætin. Vegna óeirðanna í Stirling ákvað Tayside-lögreglan að banna mótmælagöngu frá bænum Auctherarder sem hún hafði áður veitt leyfi fyrir. Mikil reiði greip um sig hjá forsvarsmönnum göngunnar enda höfðu þeir lagt áherslu á að ganga þeirra yrði með friðsamlegu yfirbragði. "Síðan hvenær hefur Bretland verið lögregluríki?" spurði hinn umdeildi skoski þingmaður George Galloway. "Hvenær fékk lögreglan heimild til að aflýsa kröfugöngum í þessu frjálsa landi okkar?" Lögreglan ákvað skömmu síðar að heimila gönguna. Um fjögur þúsund manns tóku þátt í göngunni og í fyrstu fór allt vel fram. Fljótlega klofnaði hins vegar gangan, nokkur hundruð mótmælendur rifu niður girðingu við veginn og hlupu síðan að lögregluvarðturni sem stóð við öryggisgirðingu um Gleneagles-svæðið. Herþyrlur fluttu óeirðalögreglu fljótlega á vettvang og tókst henni að dreifa ófriðarseggjunum. Stærstur hluti göngumanna lét sér þó nægja að mótmæla á friðsamlegan hátt. Margir þeirra fórnuðu höndum og hrópuðu "hendur ykkar eru ataðar blóði". Væntanlega hafa þeir vísað þar til stríðsrekstarins í Írak og eymdarinnar í Afríku sem þeir telja að leiðtogar G8-ríkjanna beri ábyrgð á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×