Erlent

Tengdi Írak og ellefta september

George W. Bush Bandaríkjaforseti reyndi í sjónvarpsávarpi sínu í fyrrinótt að sannfæra þjóð sína um að innrásin í Írak hafi verið nauðsynlegur liður í stríðinu gegn hryðjuverkum. Skiptar skoðanir eru um ágæti ræðunnar á alþjóðavettvangi. Þegar ár er síðan Írakar fengu fullveldi sitt á nýjan leik hefur stuðningur við stríðsreksturinn dvínað umtalsvert í Bandaríkjunum. Nýjustu kannanir sýna að einungis þriðjungur Bandaríkjamanna telur að herir bandamanna séu að vinna stríðið, níu prósentustigum færri en í febrúar. Ávarpið sem Bush flutti úr herstöðinni í Fort Bragg í Norður-Karólínu í fyrrinótt bar þess merki að hann tæki stöðuna í heimalandi sínu alvarlega og því reyndi hann að höfða til þjóðarinnar með því að tengja innrásina í Írak við hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. "Upphaf stríðsins má rekja til 11. september. Óvinum okkar mun takast ætlunarverk sitt ef við gleymum þeirri lexíu sem við lærðum þá og skiljum írösku þjóðina eftir í höndum Abu Musab al-Zarqawi og Mið-Austurlönd í höndum Osama bin Laden." Athygli vakti að Bush var ómyrkur í máli um hversu erfið staðan í Írak er. "Þegar fregnir berast af öllu þessu ofbeldi þá veit ég að Bandaríkjamenn spyrja sig hvort fórnirnar séu þess virði. Þær eru þess virði vegna þess að þær eru nauðsynlegar öryggishagsmunum lands okkar." Hann ítrekaði hins vegar að hvorki væri til sérstök tímaáætlun um hvenær herinn yrði kallaður heim né væri á döfinni að fjölga hermönnum í Írak.. Bush lýsti því ennfremur að til að ná fram sigri þyrfti bæði að styrkja hersveitir Íraka þar til þær gætu sjálfar séð um að tryggja öryggi landsmanna og aðstoða þá við að semja stjórnarskrá og halda kosningar. Helstu bandamenn Bandaríkjanna voru ánægðir með ræðu Bush. Formælandi Ástralíustjórnar sagði að hún undirstrikaði nauðsyn þess að berjast fyrir frelsi og lýðræði. Í yfirlýsingu kínversku ríkisstjórnarinnar var þess hins vegar óskað að Írakar fengju raunverulegt sjálfstæði sem fyrst. Breski þingmaðurinn George Galloway fann ávarpinu flest til foráttu eins og við var að búast. "Allt sem þrjóska Bush hefur skilað er dauði fjölda fólks, bæði Íraka og annarra."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×