Erlent

Schröder leitar trausts

Gerhard Schröder boðaði ríkisstjórn sína á fund í dag til að greina ráðherrum frá því hvers vegna hann hygðist leita traustsyfirlýsingar frá þinginu á föstudaginn. Áformin hafa raunar legið fyrir um hríð, en Schröder hefur hins vegar ekki viljað greina frá ástæðu þess að hann leitar traustsyfirlýsingarinnar. Ríkisstjórnin er óstarfhæf og því vill Schröder, kanslari Þýskalands, að hún verði felld með vantrauststillögu og boðað til þingkosninga. Með þessum aðgerðum vonast Schröder til þess að halda völdum. Í dag kynnti hann ástæðuna: ríkisstjórnin er ekki starfhæf eftir að stjórnarflokkarnir töpuðu níu sambandslandskosningum í röð. Stjórnarandstaðan ræður nú í þrettán af sextán sambandslöndum og um leið efri deild þýska þingsins. Hún getur því stöðvað mörg þeirra mála sem Schröder vill koma í gegn. Og því vill hann að þingið lýsi vantrausti, þvingi forsetann Horst Köhler til að taka afstöðu og að líkindum boða til nýrra kosninga, ári á undan áætlun. Köhler gæti hins vegar hafnað vantraustinu og sagt það leið til að komast fram hjá stjórnarskrá landsins sem bannar að kosningum sé flýtt með þessum hætti. Til þess að vantrausti verði lýst verður Schröder að treysta á stuðningsmenn sína, merkilegt nokk. Þeir þurfa að sitja hjá eða lýsa á hann vantrausti því stjórnarandstaðan, sem gagnrýnt hefur kanslarann harðlega, er ekki á því að taka þátt í leikfléttu hans. Gangi fléttan ekki upp er talið næsta víst að Schröder segi af sér, en gangi allt eins og hann vonast til bíður erfið kosningabarátta, því kristilegir demókratar með Angelu Merkel í fararbroddi hafa mikið forskot samkvæmt könnunum. Takist Schröder hins vegar að merja sigur, eins og gerðist í síðustu kosningum, mun hann sussa á efri deildina og krefjast þess að umbótaáform hans verði ekki stöðvuð þar, því að kjósendur hafi lýst stuðningi við sig í kosningum. Nokkuð flókið og andstætt stjórnarskránni að mati sérfræðinga, en atkvæðagreiðslan í þinginu verður samt sem áður á föstudag og eftir það hefur forsetinn Köhler þrjár vikur til að ákveða næsta leik í stöðunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×