Erlent

Aldurforsetinn ráðinn af dögum

Í gær var ár liðið síðan Írakar fengu aftur fullveldi sitt eftir innrásina í landið í mars 2003. Engu að síður er þar róstusamt sem aldrei fyrr. Í gærmorgun beið Ahari Ali al-Fayadh, tæplega níræður aldursforseti íraska þingsins, bana ásamt syni sínum og lífvörðum í sjálfmorðssprengjuárás nærri Bagdad. Fayadh var á leið til þingins þegar árásin var gerð en hann var fulltrúi Íslamska byltingarráðsins í Írak, SCIRI. Þetta er annar þingmaðurinn sem ráðinn er af dögum síðan Írakar gengu að kjörborðinu í janúarlok. Al-Kaída í Írak lýsti ábyrgð á tilræðinu á vefsíðu í gær en áreiðanleiki hennar hefur ekki fengist staðfestur. Tilræðið var harðlega fordæmt en talið er að því sé ætlað að auka enn á spennu sem fyrir er milli sjía og súnnía.. Talið er að minnsta kosti tólf manns hafi dáið í öðrum árásum í landinu í gær. Þar á meðal voru fimm manns sem létust í þremur bílsprengjuárásum í bænum Baqouba. George W. Bush Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína í gærkvöld í tilefni afmælis fullveldisframsalsins. Efasemdir um réttmæti stríðsrekstrarins í Írak gerast æ meiri á meðal bandarísku þjóðarinnar og því reyndi Bush að sannfæra hana um að árangur væri í augsýn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×