Erlent

Nauðgað að skipun öldunga

Pakistönsk kona sem nauðgað var af hópi karla í refsingarskyni hefur nú eftir langa baráttu fengið illvirkjana dregna fyrir hæstarétt landsins. Hugrekki konunnar hefur vakið heimsathygli og jafnframt beint sjónum fólks að stöðu kvenna í þessum heimshluta. Óhætt er að segja að Makhtar Mai, 36 gömul kona frá Punjab-héraðinu, hafi mætt miklu mótlæti allt frá júnídeginum örlagaríka árið 2002. Þá úrskurðaði öldungaráðið í þorpinu hennar að Mai skyldi nauðgað vegna þess að bróðir hennar hafði gert sér dælt við konu úr öðrum ættflokki. Skömmin sem fylgir nauðgunum þýðir að fátítt er að konur sæki kvalara sína til saka. Mai ákvað aftur á móti að tala um þessa hræðilegu lífsreynslu og freista þess að fá ódæðismennina dæmda. Héraðsdómur dæmdi sex menn til dauða fyrir verknaðinn en átta voru hins vegar sýknaðir. Í mars á þessu ári sneri hins vegar áfrýjunardómstóll dómunum við, sýknaði fimm manns og breytti dauðadómi þess sjötta í lífstíðarfangelsi. Til að bæta gráu ofan á svart var Mai sett í farbann á dögunum en henni hafði verið boðið að halda erindi í Bandaríkjunum og bar Pervez Musharraf, forseti Pakistans, því við að hann vildi ekki að talað yrði illa um land sitt erlendis. Vegna alþjóðlegs þrýstings afléttu stjórnvöld í Islamabad hins vegar farbanninu. Mai hefur aftur á móti verið undir ströngu eftirliti lögreglu, að sögn henni til verndar. Í gærmorgun kom hæstiréttur saman í stutta stund en frestaði svo réttarhaldinu um einn dag. "Ég er afar bjartsýn. Ég vona að upphaflegi dómurinn öðlist gildi á ný og þeim sem misþyrmdu mér verði refsað," sagði Mai skömmu áður en dómararnir hittust. Paul Anderson, fréttaritari BBC í Pakistan, segir málið vera prófstein á vilja stjórnvalda til að verja rétt og stöðu kvenna í landinu. Mannréttindasamtök telja að þau hafi hingað til hvorki sýnt áhuga né getu til að koma í veg fyrir að ættarhöfðingjar taki lögin í sínar hendur eins og gerðist í máli Mai. Samhliða málarekstrinum hefur Mai látið til sín taka í baráttunni fyrir bættum réttindum kvenna. Þrátt fyrir að vera sjálf ólæs hefur hún til dæmis haft forgöngu um stofnun skóla fyrir stúlkur í heimahéraði sínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×