Erlent

Uppreisnin gæti staðið í áratug

Bandarísk stjórnvöld virðast vera farin að gera sér grein fyrir því að baráttan við uppreisnarmenn í Írak gæti tekið mörg ár til viðbótar. Þau staðfesta að hafa átt í viðræðum við einhverja uppreisnarhópa. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagðist í viðtali við NBC-sjónvarpsstöðina í fyrradag búast við því að uppreisnin gegn hernáminu í Írak gæti staðið yfir í allt að tólf ár til viðbótar. "Erlendar hersveitir geta ekki barið þessa uppreisn niður. Í staðinn verðum við að búa til umhverfi þar sem íraskar hersveitir geta sjálfar komið á friði í landinu." Orð Rumsfeld eru í ósamræmi við ummæli Dick Cheney sem á dögunum sagði að uppreisnin væri "í dauðateygjunum". Í viðtalinu staðfesti Rumsfeld jafnframt fréttir um að Bandaríkjamenn hefðu átt í viðræðum við uppreisnarmenn í Írak en þvertók hins vegar fyrir að eiga nokkurt samstarf við hópa á borð við Ansar al-Sunna og al-Kaída sem hafa staðið fyrir verstu hryðjuverkunum í landinu. Á blaðamannafundi í gær viðurkenndi svo Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, að breskir leyniþjónustumenn hefðu rætt við skæruliða í Írak. George W. Bush Bandaríkjaforseti flytur í dag sjónvarpsávarp um stöðu og horfur í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×