Erlent

Bandaríkjastjórn óvinsæl

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur beðið hnekki undanfarin ár, sérstaklega augum Mið-Austurlandabúa. Stríðsreksturinn í Írak er ástæða þessarar andúðar. Ímynd Bandaríkjastjórnar virðist svo sködduð eftir tveggja ára stríð í Írak að kommúnistastjórnin í Kína nýtur meiri hylli á meðal margra þjóða. Í þeim hópi eru gamlir bandamenn Bandaríkjanna, svo sem eins og Bretar og Frakkar. Ímyndin virðist ekki hafa batnað þótt ríkisstjórn George W. Bush hafi reynt að leggja áherslu á frelsi og lýðræði í umræðum um Mið-Austurlönd og tekið sig verulega á í alþjóðlegri þróunarhjálp, til dæmis með háum framlögum til hjálparstarfs á flóðasvæðum í Suðaustur-Asíu. Í Bretlandi, þar sem stjórnvöld leggja mikið upp úr góðum samskiptum við Bandaríkjastjórn, segjast 65 prósent vera jákvæð í garð Kínastjórnar en 55 prósent í garð Bandaríkjastjórnar. Svipaða sögu er að segja af Frökkum þar sem 58 prósent hugsa vel til Kína en ekki nema 43 bera hlýjan hug til Bandaríkjanna. Niðurstöður á Spáni og í Hollandi eru nær samhljóða þeim í Frakklandi. Verstu útreiðina fékk Bandaríkjastjórn í múslimaríkjum á borð við Tyrkland, Pakistan og Jórdaníu. Í þessum löndum sér einungis um fimmtungur íbúa Bandaríkjastjórn í jákvæðu ljósi á meðan meira en helmingur aðspurðra í þessum löndum hugsar hlýlega til stjórnvalda í Kína. Einungis Indverjar og Pólverjar eru jákvæðari í garð Bandaríkjanna en Kína og næstu nágrannar Bandaríkjanna í Kanada bera svipaðan hug til beggja stjórna. Viðhorf til Bandaríkjastjórnar versnaði snarlega eftir innrásina í Írak vorið 2003 og hefur ekki batnað að neinu ráði síðan nema í Indónesíu þar sem Bandaríkjamenn lögðu talsvert fé í aðstoð við fórnarlömb flóðbylgjunnar í desember. Meirihluti aðspurðra í flestum löndum sagði í könnuninni að þeim þætti Bandaríkjastjórn ekki líta til hagsmuna annarra landa við ákvarðanatöku í utanríkismálum. Flestir þeir sem lýstu neikvæðu viðhorfi í garð Bandaríkjastjórnar sögðu að líklega væri Bush Bandaríkjaforseti helsta ástæðan fyrir óvinsældunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×