Erlent

Segja fanga pyntaða í Guantanamo

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum gagnrýna Bandaríkjastjórn harðlega fyrir að hleypa sér ekki inn í fangelsið við Guantanamo-flóa á Kúbu. Sérfræðingarnir segjast nær fullvissir um að þar séu stundaðar pyntingar á föngum. Þetta kom fram á fundi sem mannréttindastofnun SÞ hélt í Genf í gær. Sameinuðu þjóðirnar hafa nú reynt án árangurs að fá leyfi Bandaríkjastjórnar til að fá að senda mannréttindafulltrúa að rannsaka fangelsið síðan snemma árs 2002. Þeir hafa margsinnis ítrekað þá beiðni sína og segjast hafa frá áreiðanlegum heimildamönnum að í fangelsinu séu stundaðar pyntingar, ill meðferð á föngum og mannréttindi séu ítrekað þverbrotin. Einnig segjast þeir hafa heimildir fyrir svipuðum mannréttindabrotum í bandarískum fangelsum í Írak og Afganistan. Austurríkismaðurinn Manfred Nowak sem er sérfræðingur um pyntingar segir þó að ekki sé hægt að dæma um sekt Bandaríkjastjórnar í málinu nema mannréttindafulltrúar fái sjálfir að skoða aðstæður en tekur einnig fram að honum þyki líta út fyrir að verið sé að reyna að fela eitthvað misjafnt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×