Erlent

Stirt andrúmsloft á leiðtogafundi

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, hittust í Jerúsalem í gær. Á sama tíma herti ísraelski herinn aðgerðir sínar gegn herskáum Palestínumönnum og handtók yfir fimmtíu grunaða uppreisnarmenn. Fundur þeirra Sharon og Abbas er sá fyrsti síðan vopnahléi var lýst yfir í febrúarbyrjun og var efni fundarins samræming aðgerða fyrir brottflutning landnema frá Gaza-ströndinni síðar í sumar. Fundurinn stóð yfir í rúmar tvær klukkustundir og að sögn ísraelskrar sjónvarpsstöðvar var andrúmsloftið þvingað. Engar yfirlýsingar voru gefnar út eftir fundinn. Ísraelskir embættismenn sögðu í samtölum við fjölmiðla að Sharon hefði sagt Abbas að Palestínumönnum yrðu senn fengin yfirráð yfir bæjunum Qalqiliya og Bethlehem innan tveggja vikna svo fremi sem þeir tækju uppreisnarmenn fastari tökum. Auk þess væru þeir til viðræðu um að láta fleiri palestínska fanga lausa og leyfa útlögum að snúa aftur til síns heima. Síðan leiðtogarnir hittust í Sharm el-Shaik í febrúar í febrúar hafa Ísraelar verið gagnrýndir fyrir að skirrast við að láta lausa fanga, taka niður vegatálma og færa Palestínumönnum yfirráð yfir fleiri bæjum eins og vopnahléssamkomulagið kvað á um. Þeir segja á móti að Palestínumenn leyfi uppreisnarmönnum að leika lausum hala. Síðustu daga hefur ólga vaxið í landinu. Eftir aðgerðir samtakanna Heilagt stríð síðustu daga sem hafa kostað nokkur mannslíf handtóku ísraelskar hersveitir 52 meðlimi þeirra í gærmorgun. Þetta er stefnubreyting hjá Ísraelum því fram að þessu hafa þeir einbeitt sér að því að handtaka þá sem beina aðild eiga að árásum. Þrátt fyrir handtökurnar hélt ofbeldið áfram þegar vopnaðir menn á Vesturbakkanum réðust á ísraelska bifreið og skutu einn farþegann. Um svipað leyti myrtu ísraelskir hermenn Palestínumann sem gert hafði gat á girðinguna á landamærum Ísraels og Gaza.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×