Erlent

Kvenráðherra sver embættiseið

Fyrsti kvenráðherra Kúveits sór í dag embættiseið á kúveiska þinginu við hávær mótmæli íslamskra harðlínumanna. Massouma al-Moubarak, fyrrverandi háskólaprófessor og baráttukona fyrir réttindum kvenna, var í síðustu viku skipuð skipulags- og stjórnsýsluráðherra í Persaflóaríkinu og tekur sæti á kúveiska þinginu sem slík. Moubarak sagði við athöfnina að dagurinn í dag markaði þáttaskil fyrir kúveiskar konur sem lengi hefðu barist fyrir því að fá að taka þátt í stjórnmálum í landinu. Þingmönnum úr röðum íslamista var hins vegar ekki skemmt í dag en þeir hrópuðu á meðan Moubarak hélt ræðu sína og kröfðust þess að skipan hennar í embætti yrði rædd á þinginu. Þeir voru einnig margir andsnúnir lögum sem samþykkt voru í síðasta mánuði og veita konum bæði kosningarétt og kjörgengi í þingkosningum, en þær hafa barist fyrir þessum pólitísku réttindum í rúm 40 ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×