Erlent

Kosið um stjórnarskrá í Lúxemborg

Yfirvöld í Lúxemborg ákváðu í dag að hverfa ekki frá þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Evrópusambandsins þann 10. júlí næstkomandi þrátt fyrir þá óvissu sem ríkir um hana í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar felldu hana. Stjórnmálaflokkar á þingi Lúxemborgar samþykktu einróma að halda atkvæðagreiðslunni til streitu en í síðustu viku ákváðu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna að leggja stjórnarskrána til hliðar með því að framlengja þann frest sem ríkin hafa til að samþykkja hann frá nóvember á næsta ári til miðs árs 2007. Lúxemborgarar fara því ekki sömu leið og Danir, Tékkar og Portúgalir sem allir hafa ákveðið að fresta fyrirhuguðum þjóðaratkvæðagreiðslum um óákveðinn tíma. Jean Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, þykir taka nokkra áhættu með þessu því hann hefur sagst munu segja af sér ef landar hans felli sáttmálann. Stuðningur við stjórnarskrána í Lúxemborg hefur minnkað nokkuð frá því að Frakkar og Hollendingar felldu hana, en samkvæmt skoðanakönnunum hyggjast 55 prósent þeirra sem afstöðu taka samþykkja hana en 45 prósent ætla að hafna henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×