Erlent

Búist við átakafundi í Ulsan

Búist er við átökum á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem hófst í Ulsan í Suður-Kóreu í morgun. Hvalveiðisinnar gerðu sér vonir um að ná í gegn breytingum sem gerðu það að verkum að takmarkaðar hvalveiðar yrðu aftur leyfðar, en slegið var á þær væntingar strax í upphafi fundar. Frá árinu 1986 hefur Alþjóðahvalveiðiráðið lagt blátt bann við hvalveiðum en með tilkomu fjögurra þróunarríkja í ráðið glæddust vonir hvalveiðsinna um að ná fram einföldum meirihluta sem knúið gæti fram breytingar á ríkjandi stefnu. Litlar vonir eru þó til að hvalveiðibannið verði alfarið fellt úr gildi en til þess þyrfti aukinn meirihluta. Umræða um hið eiginlega afnám hvalveiðibannsins hefst á morgun en ársfundurinn stendur fram á föstudag. Í morgun lögðu Japanar það til að atkvæðagreiðslur innan ráðsins yrðu leynilegar. Það myndi meðal annars koma í veg fyrir umhverfisverndarsinnar beittu þær þjóðir sem hlynntar eru hvalveiðum þvingunum. Tillögunni var hins vegar hafnað með 30u atkvæðum gegn 27 sem gefur til kynna ríkjandi valdahlutföll í ráðinu. Ekki vakti yfirlýsing Japana um að þeir ætluðu að veiði 850 hrefnur árlega meiri lukku en það er meira en tvöfaldur fjöldi þeirra dýra sem þeir hafa veitt undanfarin ár. Fulltrúar Nýja-Sjálands og Ástralíu, landa sem byggt hafa upp öflugan iðnað í kringum hvalaskoðun, brugðust afar illa við og sagði umhverfisráðherra Ástralíu, Ian Campbell, áætlanirnar skammarlegar. Noregur er eina landið sem stundar hvalveiðar í þeim tilgangi einum að selja kjötið til manneldis á meðan Japanar og Íslendingar veiða hrefnur undir yfirskini vísindarannsókna. Óánægja með hvalveiðibannið fer vaxandi í Japan og þær ræddir heyrast úr stjórnkerfinu að þjóðin eigi að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu dragi ekki til tíðinda á fundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×