Erlent

Merki lýðræðis og frelsis

Stuðningsmenn lýðræðishetju Myanmar, Aung San Suu Kyi, söfnuðust saman um allan heim í gær á sextugs afmælisdegi hennar, og kröfðust þess að herstjórnin í Myanmar leysti hana úr stofufangelsi. Suu Kyi hefur setið í stofufangelsi á heimili sínu í 10 af síðustu 16 árum og var afmælisdagur hennar engin undantekning. Hátíðarhöldin í tilefni afmæli hennar hófust í gærmorgun með trúarathöfn í höfuðstöðvum stjórnmálaflokks hennar í Yangon, Þjóðarbandalags fyrir lýðræði. Þar söfnuðust flokkssystkini hennar saman og færðu búddamunkum mat. Síðar um dagin komu nokkur hundruð manns saman, auk nokkurra erlendra diplómata, til að vera viðstödd þegar tíu dúfum og 61 blöðru var sleppt. Blöðrurnar 61 tákna upphaf 61. árs Suu Kyis. Óeinkennisklæddir lögreglumenn stóðu hjá við athöfnina og tóku hana upp á myndbandsvél. Herinn hefur stjórnað Myanmar frá 1962, en núverandi herstjórn komst til valda árið 1988 eftir að hafa brotið á bak aftur uppreisn lýðræðissinna. Kosningar voru haldnar 1990, en herinn neitaði að gefa eftir völdin þegar flokkur Suu Kyi vann með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Af ótta við styrk Suu Kyis í stjórnmálum og vinsældir hennar hefur herstjórnin ítrekað haldið henni í stofufangelsi. Nú síðast frá árinu 2003. Evrópskir stuðningsmenn Aung San Suu Kyi, sýndu einnig samstöðu sína með þessum friðarverðlaunahafa Nóbels frá 1991. Danski utanríkisráðherrann, Per Stig Möller, kallaði eftir því að Suu Kyi yrði sleppt úr stofufangelsi og sagði hana merki lýðræðis og frelsis í öllum heiminum. Í Noregi komu stuðningsmenn hennar saman fyrir framan þingið og norska Nóbelsnefndin sendi frá sér tilkynningu þar sem hún hvatti herstjórn Myanmar til að leysa hana úr haldi. Þá voru haldnar samkomur til stuðnings Suu Kyi í Kuala Lumpur, Malasíu, Bangladess, Japan, Suður Kóreu, Bretlandi og í Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×