Erlent

Íranar fjölmenntu á kjörstað

Afar góð kjörsókn var í írönsku forsetakosningunum í gær. Úrslit munu liggja fyrir í dag en búist er við að kjósa þurfi aftur á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Þegar 41.000 kjörstaðir voru opnaðir víðs vegar um Íran í gærmorgun var ljóst að þorri kjósenda hygðist nýta sér kosningarétt sinn og í gærkvöld var talið að kjörsókn hefði verið um sextíu prósent. Lengja þurfti opnunartíma kjörstaða vegna kjörsóknarinnar. Fyrir fram var búist að Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseti, myndi fá flest atkvæði og annað hvort myndi umbótasinninn Mostafa Moin eða harðlínumaðurinn Mohammad Bagher Qalibaf lenda í öðru sæti. Fái enginn frambjóðenda hreinan meirihluta verður kosið aftur að viku liðinni á milli þeirra tveggja efstu. Talið er að íranskir kjósendur hafi færst í aukana eftir að Ali Khameini erkiklerkur hvatti þá til að kjósa. Áeggjan erkiklerksins kom eftir að George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði kosningarnar marklausar þar sem öll völd væru í höndum klerkaráðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×