Erlent

Allt í hnút í ESB

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, gerði hlé á leiðtogafundi Evrópusambandsins stuttu eftir hádegi í gær. Umræður um fjárlög sambandsins fyrir tímabilið 2007 til 2013 fóru í hnút og Juncker mun hafa boðað hina leiðtogana 24 á sinn fund til þess að ræða einslega við þá áður en lengra verður haldið. Leiðtogarnir kappkosta við að halda lífi í stjórnarskrársáttmálanum þótt lítil von sé um að það takist. Í drögum að ályktun sem leiðtogarnir ræddu í gær kemur meðal annars fram, að þótt Frakkar og Hollendingar hafi hafnað sáttmálanum þýði það ekki að gjá hafi myndast á milli Evrópusambandsins og borgara þess, og tefli Evrópusamrunanum ekki endilega í tvísýnu. Það hafi aldrei verið jafn aðkallandi og einmitt nú að halda honum áfram. "Evrópusambandið hefur gert okkur kleift að tryggja velferð þegna okkar, gildi okkar og hagsmuni, og gert okkur að leiðandi afli í alþjóðamálum," segir meðal annars í drögunum. Leiðtogar ESB-ríkjanna 25 viðurkenna þó að þeir hafi staðið sig illa í að kynna þegnum sínum stjórnarskrána og þurfi að taka sig á í þeim efnum. Þá hefur verið ákveðið að framlengja frestinn til að staðfesta stjórnarskrána, en hann átti að renna út í nóvember á næsta ári. Nýr frestur verður ákveðinn að ári. Það er þó ljóst að við ramman reip að draga. Svíar munu ekki staðfesta stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins nema Frakkar og Hollendingar boði til annarra þjóðaratkvæðagreiðslna, segir Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar. "Ef þeir geta ekki sannfært þegna sína um að kjósa aftur um sömu stjórnarskrá, er dæmið fallið um sjálft sig og óþarfi að halda fullgildingarferlinu áfram."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×