Erlent

Ítalir kjósa um frjósemislög

Ítalir ganga nú til þjóðaratkvæðagreiðslu til að skera úr um hvort fella eigi úr gildi lög sem setja hömlur á frjósemisaðgerðir. Vatíkanið hefur tekið fullan þátt í kosningaherferðinni. Síðustu viku hefur Vatíkanið att kappi við þá sem segja núgildandi lög hamla framþróun í vísindum og brjóta á réttindum þeirra sem þurfa að gangast undir frjósemisaðgerðir. Því má segja að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar gefi vísbendingu um þau völd sem rómversk-kaþólska kirkjan hefur í Ítalíu. Lögin sem um ræðir tóku gildi á síðasta ári. Þau takmarka fjölda fósturvísa í tæknifrjóvgun við þrjá, meina fólki að leita til sæðis- og eggjgjafa til að eignast börn, banna frystingu fósturvísa og alfarið að á þeim séu framkvæmdar rannsóknir. Lögin hafa verið afar umdeild og eftir að fimm hundruð þúsund undirskriftum var skilað inn í september á síðasta ári féllst Hæstiréttur Ítalíu á að ítalskir kjósendur gætu bundið enda á þessar takmarkanir. Kaþólska kirkjan, sem er andvíg frjósemisaðgerðum og stofnfrumurannsóknum, vill að lögin verði áfram í gildi. Ítalskir biskupar hafa hvatt fólk til að sniðganga atkvæðagreiðsluna, með íhlutun og samþykki Benedikts páfa, en meira en helmingur atkvæðisbærra manna þarf að greiða atkvæði sitt svo niðurstaða kosninganna verði gild. Kirkjan hefur sitt á hreinu en skiptar skoðanir eru á málinu meðal stjórnmálamanna, sama hvaða flokki þeir tilheyra. Flestir hafa komið þeim skilaboðum til kjósenda að láta samvisku sína ráða gjörðum í kjörklefanum. Forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, hefur ekkert viljað gefa upp um það hvort eða hvernig hann mun kjósa. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Romano Prodi, hefur sagst munu greiða atkvæði en hefur ekkert gefið uppi um skoðanir sínar á þessu umdeilda máli. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar mun liggja fyrir seinni partinn á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×