Erlent

Villepin í forsætisráðherrastól

Jacques Chirac Frakklandsforseti skipaði í gær Dominique de Villepin í embætti forsætisráðherra og fól honum að fara fyrir nýrri ríkisstjórn. Með uppstokkuninni brást Chirac við niðurlægjandi ósigri málstaðar forsetans og stjórnarliða í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrársáttmála Evrópusambandins. Villepin flytur úr innanríkis- í forsætisráðuneytið og kemur þar í stað Jean-Pierre Raffarin, sem lýsti yfir afsögn sinni í gær. Með Villepin kaus Chirac mann sem hann er vanur að treysta. Áður en hann varð innanríkisráðherra stýrði hann utanríkisráðuneytinu og var sem slíkur rödd Chiracs í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er tekist var á um Íraksmálið veturinn 2002-2003. Ráðherralisti nýju stjórnarinnar verður væntanlega kynntur í dag. Nicolas Sarkozy, vinsælasti maðurinn í stjórnarliði hægrimanna, verður innanríkisráðherra, að því er náinn samherji Sarkozys, þingmaðurinn Yves Jego, sagði í útvarpsviðtali. Í frönskum fjölmiðlum höfðu verið miklar vangaveltur um hvort Sarkozy yrði aftur fenginn til liðs við ríkisstjórnina, en hann var innanríkisráðherra 2002-2004. Sarkozy er formaður Lýðfylkingarinnar UMP, flokks Chiracs, og er talinn hyggja á forsetaframboð árið 2007. Verði Sarkozy ráðherra í stjórn undir forystu þykir það tíðindum sæta, ekki síst með tilliti til þess að hann lét svo ummælt fyrir atkvæðagreiðsluna um helgina að einvörðungu menn sem hefðu gegnt kjörnu embætti - sem Villepin hefur aldrei - "hefðu rétt til að tala í nafni Frakklands". Ummælin voru túlkuð sem viðvörun Sarkozys gegn því að Villepin tæki við. Villepin tekur við erfiðu búi. Atvinnuleysi er yfir tíu prósentustigum og forystusveit franskra stjórnmála er meira og minna í sárum eftir klofning kosningabaráttunnar með og á móti stjórnarskrársáttmálanum. Sá klofningur gekk þvert á flokkslínur en sýndi ef til vill ekki síst gjá milli stjórnmálaforystunnar og almennings.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×