Erlent

Halda enn í vonina um samþykkt

Stuðningsmenn stjórnarskrár Evrópusambandsins halda enn í vonina um að Frakkar samþykki hana í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag. Sáttmálinn á að sameina þjóðir en stefnir í að verða djúpstætt ágreiningsefni. Jacques Chirac, forseti Frakklands, tók daginn snemma, líkt og fjórðungur kjósenda sem greiddi atkvæði sitt, fyrir hádegi.Chirac hefur lagt allt í sölurnar til að sannfæra þjóðina um að samþykkja stjórnarskrána en sú bónarganga virðist litlu hafa skilað. Um 42 milljónir Frakka eru á kjörskrá og skoðanakannanir hafa sýnt að tæpur meirihluti þeirra segir nei, takk við stjórnarskánni. Sú niðurstaða gæti haft úrslitaþýðingu um framtíð skrárinnar en samþykki allra 25 aðildarríkja Evrópusambandsins þarf til að hún taki gildi. Níu aðildarríki hafa lagt blessun sína yfir hana. Spánverjar voru þeir einu sem gengu til þjóðaratkvæðagreiðslu en ákvörðunarvaldið var í höndum þjóðþinga átta sambandsríkja. Andstæðingar stjórnarskrárinnar halda því fram að hún geri út af við sérkenni aðildarríkjanna og hafi í för með sér óásættanlegt valdaframsal þeirra til stofnana Evrópusambandsins. Fylgjendur stjórnarskrárinnar segja sáttmálann, sem leiðtogar Evrópusambandsríkja skrifuðu undir í október síðastliðnum, auðvelda ákvörðunartöku innan sambandins, það fengi sinn þjóðhöfðingja sem talað gæti einni röddu fyrir hönd sambandsríkjanna og eflt áhrifavald þjóðinna á alþjóðavettvangi. Stuðningsmennirnir halda í það hálmstrá að þeir Frakkar sem voru óákveðnir í skoðanakönnunum, en það voru um fimmtungur kjósenda, hafi á síðustu stundu snúist á sveif með þeim. Það sama muni gerast í dag og gerðist í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta þar sem Liverpool fór með óvæntan sigur af hólmi á lokamínútunum. Hvort svo verður kemur í ljós þegar atkvæði hafa verið talin, en búist er við fyrstu útgönguspá klukkan átta að íslenskum tíma. 66 prósent kjósenda höfðu greitt atkvæði klukkan fimm að íslenskum tíma. Kosningaþátttaka virðist vera öllu meiri en þegar franska þjóðin greiddi atkvæði um Maastricht-sáttmálann árið 1992. Þá var heildarþátttaka tæp 70 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×