Innlent

Hefur ekkert að fela

Framsóknarflokkurinn hefur ákveðið að gera opinber öll fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl einstakra þingmanna flokksins við fyrirtæki og sjóði. Forsætisráðherra segir öll sín tengsl löngu upplýst. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri  grænna, spurði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra á Alþingi í dag hvort ríkisstjórnin væri reiðubúin að láta birta opinberlega yfirlit yfir fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra við fyrirtæki og sjóði á sambærilegan hátt og gert væri í Danmörku. Hann sagði þessa spurningu mjög aðkallandi þegar fyrir dyrum lægi enn ein einkavæðingin á stóru fyrirtæki, auk þess sem komið hafi í ljós að stjórnarliðar, eða nánustu samherjar þeirra í stjórnmálum, séu viðriðnir fyrirtæki sem tengist einkavæðingunni. Forsætisráðherra svaraði því til að líklega yrði að ganga ansi nærri friðhelgi einkalífs ráðherra ef slíkar reglur ættu að þjóna einhverjum tilgangi. Hins vegar væri eðlilegt að fjallað yrði um reglur sem næðu til þingmanna allra. Og þingflokkur Framsóknarflokksins hefur ákveðið að taka af skarið í þessu máli. Hann hefur ákveðið að setja sér reglur um og birta opinberlega upplýsingar um fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl þingmanna flokksins við fyrirtæki og sjóði. Auk þess mun flokkurinn birta upplýsingar um þóknun þingmanna fyrir önnur launuð störf, aðild þeirra að hagsmunasamtökum og upplýsingar um gjafir, hlunnindi og boðsferðir. Jónína segist vonast til þess að allar upplýsingar um þessi tengsl verði komnar inn á heimasíðu Framsóknarflokksins strax í næstu viku. Forsætisráðherra segist hins vegar ekki geta sagt til um hvenær upplýsingarnar verði gerðar opinberar, að öðru leyti en því að það verði fljótlega. Spurður hvort þetta þýði að öll hans tengsl verði gerð opinber segir ráðherrann að hans tengsl séu ekki mikil; hann eigi aðeins lítinn hluta í fyrirtæki á Hornafirði sem hann hafi erft eftir foreldra sína og greint hafi verið frá öllu sem því tengist.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×