Sport

Diouf í bann

Senegalinn skapheiti El-Hadji Diouf hjá Bolton hefur verið dæmdur í þriggja leikja bann í kjölfarið af rauðu spjaldi sem hann fékk í bikarleiknum við Arsenal um helgina. Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Bolton, hafði nýverið lýst yfir áhuga sínum á að kaupa Diouf til Bolton eftir að lánssamningi hans hjá félaginu líkur, en hann er samningsbundinn Liverpool. Diouf hefur verið að leika vel fyrir Bolton í ár, en glórulaus skaphiti hans hefur nú komið honum í koll í annað sinn á tímabilinu.  Leikmaðurinn sló til Jens Lehmann markvarðar Arsenal í bikarleiknum um helgina og var Stóri-Sam hjá Bolton ekki par ánægður með framkomu leikmannsins og sagði hana hafa skemmt mikið fyrir liði sínu, sem átti ágæta möguleika á að ná sér í Evrópusæti með sigri í leiknum. Diouf fór áður á tímabilinu í bann fyrir að hrækja á mótherja sinn í leik og ljóst er að Stóri-Sam þarf að taka drenginn inn á teppi og lesa honum pistilinn eftir atvikið um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×