Erlent

Heimsendir í nánd?

Líf á jörðu þurrkast út með 62 milljón ára millibili, samkvæmt því sem bandarískir vísindamenn hafa komist að. Lífið gengur í bylgjum og það þykja víst ekki ný sannindi, en að þær skuli vera með þessum hætti er þó nýtt. Tveir eðlisfræðingar við Berkley-háskóla í Bandaríkjunum rannsökuðu víðtækustu gagnabanka um steingervinga sem til eru en þar er að finna ríflega 36 þúsund steingervinga sjávardýra. Þeir byggðu upp tölvugagnabanka og settu saman líkan. Niðurstöðurnar eru óvæntar: gögnin sýna svo að ekki verður um villst að allt líf á jörðinni þurrkast út með u.þ.b. 62 milljón ára millibili. Reyndar eru 65 milljón ár frá því að þetta gerðist síðast en þá dóu meðal annars risaeðlurnar út. En nú eru vísindamennirnir ráðþrota, því að þó að þeir hafi sýnt fram á þessa hringrás tekst þeim ekki að finna ástæðuna. Þeir hafa kannað hringrás sólkerfisins, mynstur eldgosa og fjöldamargt fleira og þó að kenningarnar séu sannfærandi geta þeir ekki fært sönnur á neina þeirra. Ein tilgátan er á þá leið að óþekkt pláneta langt frá sólkerfinu hafi áhrif á halastjörnur í smástirnabelti þannig að þeim rigni yfir jörðina með reglulegu millibili. Önnur kenning er að einhverskonar hringrás í möndli jarðar valdi umfangsmiklum jarðhræringum og eldgosum. Vísbendingar hafa fundist sem renna stoðum undir þá kenningu. Grein eftir vísindamenninna birtist í nýjasta tölublaði tímaritsins Nature og vona þeir að fleiri vísindamenn hefji rannsóknir á fyrirbærinu í von um að komast að ástæðum þessarar hringrásar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×