Innlent

Norðmenn fylgjast með flokksþingi

"Forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik, hringdi í mig í [fyrradag] og spurði hvort það væri rétt að við ætluðum að afgreiða tillögu á þessu þingi um að hefja aðildarviðræður á kjörtímabilinu. Hann sagði að það muni hafa mikil áhrif í Noregi ef Ísland tekur slíkt skref," sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. "EES-samningurinn er á margan hátt brothættur. Við erum þar í samvinnu við Norðmenn og Lichtenstein. Ef Norðmenn fara út stöndum við einir eftir með Lichtenstein og menn eru mjög viðkvæmir fyrir því hér á landi. Sama er uppi á teningnum í Noregi," sagði hann. Halldór sagði það hugsanlegt að Norðmenn hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á næsta kjörtímabili. "Við verðum að vera vel undir það búin og flokkurinn er að gera það. Það hefur orðið mikil viðhorfsbreyting í Framsóknarflokknum í evrópumálum á nokkrum árum. Tillögurnar sem nú eru til umræðu komu úr grasrótinni og það kom mér mjög á óvart hversu langt þær gengu," sagði Halldór. "Við Íslendingar eigum að sýna frumkvæði í þessum málum, eigum ekki að taka ákvörðun vegna þess að Norðmenn hafi tekið ákvörðun heldur á eigin forsendum. Hins vegar er eðlilegt og rétt að við höfum náið samráð um það og við höfum ákveðið að gera það, Íslendingar og Norðmenn. Guðni Ágústsson sagði að Framsóknarflokkurinn væri tvískiptur í afstöðu sinni til ESB og óttast að það muni kljúfa flokkinn ef samþykkt verður að hefja undirbúning að aðildarviðræðum. "Ég vil ekki ganga svo langt á þessu þingi. Ég vil halda friðinn innan Framsóknarflokksins og leyfa framsóknarmönnum að koma að þessum málum og ræða í sínum hópi og taka þá ákvörðun um það síðar," sagði Guðni. "Ég vara mjög við miklum átökum um evrópumálin í Framsóknarflokknum á þessu stigi. Við vitum að það er ekkert mál jafnviðkvæmt í dag á sviði íslenskrar stjórnmálaumræðu og aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna segi ég þegar við erum að skapa frið innan Framsóknarflokksins þá er mjög mikilvægt að við ályktum af skynsemi í þessu efni," sagði hann.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×