Erlent

Varar við nýju vopnakapphlaupi

Tilraunir til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna hafa ekki borið árangur sagði Hans Blix, fyrrverandi yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna. Hann varaði við því að ný vopnakapphlaup kynni að vera í uppsiglingu. Blix vísaði til þess að Íranar reyna að auðga úraníum, sem má nota til að búa til kjarnorkuvopn, Norður-Kóreustjórn hefur lýst því yfir að hún ráði yfir kjarnorkuvopnum og Bandaríkjamenn þróa nýjar tegundir kjarnorkusprengja. Hann sagði þetta sýna að baráttan gegn frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna og fyrir niðurskurði þeirra hefði látið undan síga. "Við færumst aftur á bak frekar en áfram," sagði Blix og lýsti áhyggjum af því að bandarísk stjórnvöld kynnu að vera að fjarlægjast afstöðu sína um að fækka kjarnorkuvopnum. Hann vísaði til þess að Bandaríkjamenn vinna að þróun nýrrar tegundar kjarnorkusprengja og sagði það kunni að leiða til nýs vopnakapphlaups.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×