Innlent

Ríkið greiði bætur fyrir varðhald

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær íslenska ríkið til að greiða 36 ára gömlum karlmanni 500 þúsund krónur í bætur fyrir að hafa hneppt hann í gæsluvarðhald án fullnægjandi rökstuðnings. Maðurinn stefndi ríkinu í júní í fyrra. Maðurinn var handtekinn 16. september 2003 á vinnustað sínum hjá Samskipum vegna gruns um aðild að fíkniefnainnflutningi í einu af skipum Samskipa. Hann var handjárnaður og fluttur á lögreglustöð. Skömmu áður var annar maður sem hafði heimsótt stefnanda verið handtekinn og fundust fíkniefni á honum. Lögreglan gerði leit í íbúð og bíl stefnandans en fann ekkert sem tengdist fíkniefnum og hann neitaði öllum sakargiftum. Honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 17. september til 1. október og hafður í einangrun. Hinn 19. desember var málið gegn honum fellt niður. Í dómnum segir að nægilegar forsendur hafi verið til að handtaka manninn en að yfirheyrslum loknum voru ekki nægar ástæður til að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum því það hafi ekki þjónað rannsóknarhagsmunum málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×