Erlent

500 hið minnsta látnir

Talið er að að minnsta kosti 500 manns hafi látið lífið í öflugum jarðskjálfta sem reið yfir miðhluta Írans í nótt. Fjöldi þorpa er rústir einar og um 30 þúsund manns hafa ekki í nokkur hús að venda.  Skjálftinn mældist 6,4 á Richter og miðja hans var skammt frá Zarand-borg í Kerman-héraði, reyndar ekki langt frá borginni Bam sem jarðskjálfti lagði nánast í rúst fyrir aðeins rúmu ári. Þá létust rúmlega 31 þúsund manns. Talið er að skjálftinn í nótt hafi valdið tjóni í að minnsta kosti fjörutíu fjallaþorpum og bæjum, þar á meðal í þremur sem virðast nánast hafa jafnast við jörðu. Þá berast fregnir af því að í öðrum bæ þar sem um 1500 manns búa sé nánast ekkert hús enn uppistandandi. Mjög kalt er á þessu svæði núna og rigningar gætu haft áhrif á björgunaraðgerðir. Það bætir ekki úr skák að fólk er hvatt til að halda sig úti og sofa utandyra vegna hættunnar á eftirskjálftum en það gæti reynst mörgum erfitt í þeim vetrarkulda sem nú ríkir. Jákvæða hliðin á þessu veðurfari er hins vegar að vegna kuldanna voru björgunarsveitir landsins. þegar í startholunum. Stjórnvöld í Íran brugðust hratt við og sendu flugvélar á vettvang með hjálpargögn en enn sem komið er hefur ekki verið beðið um alþjóðlega aðstoð. Íran er það land í heiminum þar sem flestir jarðskjálftar verða, eða að meðaltali einn á hverjum degi. Ástæðan er að landið liggur á mótum þriggja jarðskorpufleka sem eru á stöðugri hreyfingu.
MYND/AP
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×