Erlent

Lífeyrismál í brennidepli

Uppstokkun bandaríska lífeyriskerfisins var helsta áherslumál George W. Bush Bandaríkjaforseta þegar hann flutti stefnuræðu sína í fyrrinótt. "Við verðum að tryggja lífeyriskerfið til frambúðar, ekki að láta verkefnið bíða seinni tíma," sagði hann. Bush vill breyta kerfinu þannig að launþegar geti fengið skattaafslátt svo þeir geti lagt fé til hliðar nú og átt það sem einkalífeyri þegar þeir fara á eftirlaun. Hann sagði að yrði ekki brugðist við nú yrði lífeyriskerfið gjaldþrota árið 2042 og þá þyrfti hærri skatta, miklar lántökur ríkissjóðs eða niðurskurð á lífeyri til að bregðast við vandanum. Demókratar andmæla stefnu Bush og segja að hún geti leitt til þess að sá lífeyrir sem ríkið tryggi ungum Bandaríkjamönnum í ellinni lækki um 40 prósent. Bush fagnaði írösku kosningunum og sagði að fyrir lægi að minnka hlutverk Bandaríkjahers í Írak. Hann setti þó engin tímamörk fyrir brottför Bandaríkjahers þaðan. Hann hét því að vinna að því að koma á friði í Mið-Austurlöndum og lofaði andvirði 22 milljarða króna í aðstoð við palestínsku heimastjórnina. Hann hvatti Sýrlendinga til að hætta stuðningi við hryðjuverkamenn og lýsti Íran sem helsta stuðningsríki hryðjuverkamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×