Erlent

Fimbulvetur á Spáni

Fimbulvetur ríkir á Spáni og þar ríkja nú mestu kuldar sem mælst hafa í tvo áratugi. Tveir hafa látist vegna snjóa og kulda og samgöngur í landinu eru allar úr skorðum. Einn útigangsmaður hefur orðið úti vegna vetrarríkisins á Spáni og 33 ára gömul kona varð undir snjóhengju sem féll á hana af þaki byggingar í Palencia á Norður-Spáni. Lestarsamgöngur eru víða úr skorðum og tólf fjallvegir víðsvegar um landið eru lokaðir vegna snjóa. Og kuldinn er mikill, meira að segja á mælikvarða þjóðar sem býr við heimskautsbaug. Þannig var til að mynda kaldast í morgun í Terúel á Austur-Spáni en þar mældist 15 stiga frost, í Cuenca á Mið-Spáni var tæplega 12 stiga frost, í Toledo í nágrenni höfuðborgarinnar var átta stiga frost og í höfuðborginni Madrid var sex stiga frost. Þá var sjö stiga frost í Granada í nágrenni við Costa del Sol sem flestir tengja alla jafna við sól, sjó og strandlíf. Hitastigið var undir frostmarki í nær öllum borgum Spánar í morgun og eru Spánverjar að upplifa mestu kulda í tvo áratugi. Veðurstofa þeirra Spánverja spáir áframhaldandi kuldum og að ekki fari að hlýna fyrr en á þriðjudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×