Sport

Kvennaleikar settir í Teheran

Fyrstu íþróttaleikar íslamskra og asískra kvenna voru settir í Teheran, höfuðborg Írans í gær. Íranskar konur gengu kringum eftirlíkingu af Kaaba, heilögum stað Múslima í Sádi-Arabíu. Gangan var hluti af opnunarhátíð fyrstu íþróttaleika kvenna frá höfuðborgum íslamskra og asískra landa sem haldin er í Teheran í Íran. Um það bil 600 konur frá 17 löndum koma til leikanna og er karlmönnum meinað að horfa á  viðburði sem fram fara, utan keppni í einni grein. Karlpeningurinn fær að fylgjast með keppni í skotfimi kvennanna og verða konurnar þá kappklæddar og andlit þeirra nær hulin, líkt og tíðkast meðal strangtrúaðra múslima. Leikarnir standa í viku og eru keppendur meðal annars frá Afganistan, Armeníu, Írak og Tælandi, auk Írans. Írönskum konum hefur hingað til verið meinuð þátttaka í hvers konar íþróttakeppnum vegna strangra reglna um klæðaburð. Undantekning hefur þó verið gerð þegar um keppni í skotfimi eða skák hefur verið að ræða, enda hafa þung klæðin ekki haft áhrif á frammistöðu kvennanna í þeim greinum, að mati þeirra karla sem reglurnar settu. Þannig tóku íranskar konur þátt í keppni í skotgreinum á Olympíuleikunum í Aþenu síðastliðið sumar og í Sydney í Ástralíu árið 2000.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×