Lífið

Mugison er Vestfirðingur ársins

Tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, sem er betur þekktur undir listamannsnafninu Mugison, er Vestfirðingur ársins 2004 að mati lesenda vefritsins bb.is. Örn Elías hefur staðið sig frábærlega á tónlistarsviðinu á undanförnum árum og sérstaklega á því síðasta, en þá gaf hann m.a. út plötuna Mugimama (Is This Monkeymusic?), sem fjölmargir gagnrýnendur hafa valið bestu plötu ársins. Þá samdi hann tónlistina við kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Næsland, auk þess sem hann er tilnefndur til fimm verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum sem veitt verða í næsta mánuði. Örn Elías stóð einnig í samvinnu við föður sinn og fleiri aðila fyrir tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður, sem haldin var á Ísafirði um síðustu páska. Með tónlistarhátíðinni varð hin árlega skíðavika á Ísafirði að eftirsóknarverðum viðburði, sem vel var sóttur. Þá hefur Örn Elías verið duglegur við að kynna heimaslóðirnar, eða eins og fjölmargir lesendur sögðu: "Mugison er ein besta kynning sem Vestfirðir hafa fengið um langt skeið." 72 einstaklingar fengu atkvæði í kosningunni, sem stóð frá miðjum desember og fram til áramóta. Atkvæðin voru vel á fjórða hundraðið og fengu þeir sem voru í 1.-4. sæti rúmlega helming þeirra. Faðir Arnar Elíasar, Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar, tók við viðurkenningu sonarins á laugardag, sem eru eignar- og farandgripir sem smíðaðir eru af Dýrfinnu Torfadóttur, gullsmið í Gullauga á Ísafirði. "Þetta er agalega mikill heiður. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað ég hef gert svona merkilegt. Persónulega finnst mér það mitt mesta afrek á liðnu ári að hafa barnað unnustu mína," sagði Örn Elías er honum voru tilkynnt úrslitin, en Rúna Esradóttir, verðandi barnsmóðir hans, verður að líkindum léttari eftir um mánuð. "Þar á eftir eru það kannski þessar tvær plötur sem ég gaf út. Svo finnst mér mjög gaman að hafa átt þátt í tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin var á Ísafirði um síðustu páska." Aðspurður segist hann vonast til að titillinn "Vestfirðingur ársins 2004" gefi tóninn fyrir það sem koma skuli á þessu ári og vísar þar til fimm tilnefninga sem hann hefur hlotið til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem afhent verða í næsta mánuði. "Það væri gaman. Annars er ég furðu lostinn yfir að hafa hlotið þessi verðlaun. Mér finnst Jón Fanndal Þórðarson helst eiga að fá þau. Bæði ég og pabbi kusum hann. Ef hægt er að deila verðlaununum, þá vil ég deila þeim með Jóni og pabba og lít svo á að þeir séu ekki minni Vestfirðingar en ég." Umræddur Jón Fanndal Þórðarson, verslunarmaður og formaður Félags eldri borgara í Ísafjarðarbæ, varð í öðru sæti í valinu á Vestfirðingi ársins 2004. Hann var einn af forsvarsmönnum Heimastjórnarhátíðar alþýðunnar sem haldin var á Ísafirði á síðasta ári. Í þriðja sæti varð Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, sem varð í öðru sæti árið 2003, og í fjórða sæti varð Sigmundur F. Þórðarson, húsasmíðameistari á Þingeyri og formaður Íþróttafélagsins Höfrungs. Aðstandendur valsins á Vestfirðingi ársins 2004, Gullauga á Ísafirði, hugbúnaðarfyrirtækið Innn hf. í Reykjavík og bb.is, þakka lesendum þátttökuna og óska þeim og Vestfirðingum öllum velfarnaðar á árinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.