Lífið

Winslet á tvífara í Reykjavík

"Það er alrangt að Kate Winslet hafi verið á næturklúbbi í Reykjavík um helgina. Hún hefur aldrei komið til Íslands og var í Los Angeles með fjölskyldu sinni á laugardaginn var," segir Sara Keene hjá fyrirtækinu Premier PR í London en fyrirtækið sér um öll almannatengsl fyrir Winslet. Dyraverðir á skemmtistaðnum Rex töldu sig hafa borið kennsl á Winslet á laugardagskvöld og að þeirra sögn var hún glæsileg en lét lítið fyrir sér fara. DV og Fréttablaðið sögðu frá þessu meinta Íslandsdjammi Titanic-leikkonunnar og birtust þær fréttir einnig á vefmiðlinum Vísi.is og bárust þannig inn á borð Söru, sem varð að bregðast skjótt við og bera fréttirnar til baka. "Daily Mail hérna á Englandi hringdi í okkur og vildi fá staðfestingu á fréttum frá Íslandi um að frú Winslet hefði verið á næturklúbbi í Reykjavík í fylgd annars manns en eiginmanns hennar. Við urðum að senda tilkynningu út á alla fjölmiðla í Bretlandi og láta vita að þessi frétt væri ekki á rökum reist." Sara segir að það geti verið vont að eiga við það þegar svona fréttir eru prentaðar þar sem þær fari eins og eldur í sinu út um allan heim með tilkomu netsins. "Þetta kemur sér vitaskuld mjög illa fyrir frú Winslet, sem er hamingjusamlega gift kona," segir Sara og bætir því við að það væri verðugt verkefni að hafa uppi á tvífara Winslet sem afvegaleiddi dyraverði Rex og tvö íslensk dagblöð. Sé hún jafn lík Winslet og ætla megi gætu henni opnast einhverjar dyr í Hollywood.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.