Innlent

Réðum illa við eldinn ef kviknaði í í Örfirisey

Olíubirgðastöðin fyrir norðan Lundúnir sem stendur í ljósum logum er af svipaðri stærð og olíubirgðastöðin í Örfirisey. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir ekki nægar froðubirgðir til í landinu til þess að slökkva eld eins og þann sem logar í Bretlandi.

Forsvarsmenn olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey fylgjast með brunanum í Bretlandi og bíða eftir upplýsingum um hvað olli honum til að sjá hver hættan er hér.

Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, segir stöðina sem nú er í ljósum logum í Bretlandi svipaðrar stærðar og með svipað eldsneyti og olíubirgðastöðin í Örfirisey. "Ef við yrðum fyrir einhverjum þeim skakkaföllum sem urðu þarna er ekkert til að segja að þetta gæti ekki gerst hér," segir hann. Hann segir þó erfitt að tala um líkur á slíku, þar sem hann þekki ekki aðstæður og öryggisráðstafanir í stöðinni í Bretlandi.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri sagði í hádegisviðtalinu á NFS að ef eldur kæmi upp í olíubirgðastöðinni í Örfirisey þyrfti að rýma stór svæði. Vindátt réði mestu um hversu stórt svæði þyrfti að rýma og gæti einnig gert slökkvistarf mjög erfitt, þannig gæti reynst erfitt að komast að stöðinni ef reykinn legði yfir einu aðkomuleiðina að stöðinni. Jón Viðar sagði að froðubirgðir hér á landi væru ekki nægar til þess að ráða niðurlögum elds eins og nú logar í Bretalandi og að við þyrftum að fá froðubirgðir frá Norðurlöndunum kæmi slíkur eldur upp hér.

Hörður segir það vandasamt verk að finna olíubirgðastöðinni nýjan stað því ef hún verður langt frá borginni muni flutningar á bensíni til borgarinnar aukast til muna. Hann segir Olíudreifningu þó lengi hafa verið á því að flytja eigi flugvélaeldsneytið í tanka hersins við Helguvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×