Erlent

Írar kjósi um stjórnarskrá ESB

Írar hyggjast ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins þrátt fyrir að Hollendingar og Frakkar hafi hafnað honum. Frá þessu greinid Dermot Ahern, utanríkisráðherra landsins, í dag. Írar hafa þó ekki ákveðið hvenær kosið verður um sáttmálann en utanríkisráðherrann sagði að hægt væri að breyta honum í ljósi niðurstöðunnar í Frakklandi og Hollandi. Þá hafa Pólverjar og Portúgalir einnig lýst því yfir að atkvæði verði greidd í löndunum tveimur um stjórnarskrána. Skiptar skoðanir hafa verið um framtíð sáttamálans innan sambandsins og sagði Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, í gær þegar hann tilkynnti að Bretar myndu fresta fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu að aðildarríkin yrðu að taka sameiginlega ákvörðun um framtíð stjórnarskrárinnar. Jacques Chirac Frakklandsforseti og Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, hafa hins vegar lýst því yfir að þeir vilji að aðildarþjóðirnar vinni áfram að staðfestingu sáttmálans, en leiðtogar þjóðanna 25 hittast í næstu viku og ræða þá stöðu sem upp er komin innan sambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×