Innlent

Björk vill breyta strætó

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi VG og stjórnarformaður Strætó bs. mun leggja fram tillögur um breytingar á þjónustutíma, tímatöflum og jafnvel tilteknum leiðum strætisvagna á stjórnarfundi fyrirtækisins á föstudag. "Ég mun leggja það til við stjórn að ekið verði til klukkan 24 á kvöldin á öllum leiðum," sagði Björk. "Mér finnst skipta mjög miklu máli að svo verði til að koma til móts við vaktavinnufólk og ungt fólks sem fer ekki fyrr heim til sín á kvöldin. Svo mun ég gera tillögu um ýmsar lagfæringar á tímatöflu. Þetta getur ekki tekið gildi fyrr en 1. október þegar nýtt vaktakerfi vagnstjóra tekur gildi, því þetta þarf að gerast í sátt við þá." Um hugsanlegar breytingar á leiðakerfinu segir Björk tillögur sínar í þeim efnum ekki hugsaðar til að koma til móts við þarfir einstakra notenda heldur stærri hópa þeirra. Hún segir jafnframt að á mánudag, þegar skólar hefjast, verði strætisvagnarnir farnir að aka á 10 mínútna fresti á álagstímum í stað 20 mínútna fresti nú. Hið nýja leiðakerfi hefur hlotið gagnrýni og hafa hundruð erinda borist fyrirtækinu vegna þess. Björk segir að stjórnin mun hefja vinnu við breytingum á því með hliðsjón af þeim erindum strax næstkomandi föstudag. Leiðakerfið var til umræðu á fundi umhverfisráðs Reykjavíkurborgar í fyrradag. Þar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um óháða úttekt á því og jafnframt hugmyndir um hvort taka bæti upp gamla kerfið meðan unnið væri að úrbótum á því nýja. Ákveðið var að fresta afgreiðslu hennar að ósk fulltrúa R - listans, að sögn Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Borgarráð hafði áður fellt þessa tillögu með meirihlutaatkvæðum fulltrúa R - listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×