Erlent

Eggjum og grjóti kastað í lögreglu

Lögreglu og mótmælendum brottflutningsins frá Gaza-ströndinni laust saman í gær og voru fimmtíu manns handteknir í kjölfarið. Þetta eru verstu átök sem komið hefur til vegna brottflutningsins. Í gærmorgun sagaði lögregla í sundur aðalhlið Neve Dekalim, stærstu landnemabyggðina á Gaza, svo að 120 flutningabílar kæmust að húsum fólks til þess að flytja búslóðir þess. Innan skamms var hins vegar fjöldi fólks kominn á vettvang og lét múgurinn ófriðlega. Þegar lögreglumenn reyndu að koma fólkinu á brott tók það að henda í þá eggjum, grjóti og öðru lauslegu og kveiktu auk þess í ruslagámum. Fimmtíu manns voru hnepptir í varðhald í kjölfarið. Nokkrum klukkustundum síðar héldu mótmælendur sína leið og flutningabílarnir komust að húsunum, sumir þó undir strangri hervernd. Síðdegis í gær höfðu þrjár landnemabyggðir af átta á Gaza verið tæmdar og tvær af fjórum á Vesturbakkanum. Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, kvaðst í gær vonast til þess að undir kvöld væri helmingur landnemanna 8.500 horfinn á braut. Á miðnætti í nótt rann svo út fresturinn sem landnemarnir höfðu til þess að flytja með góðu, herinn hyggst flytja þá með valdi í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×