Erlent

Kasparov úr skák í stjórnmál

Skákgoðsögnin Garrí Kasparov tilkynnti í gær að hann væri hættur atvinnumennsku í íþróttinni sem hann varð fyrst heimsmeistari í fyrir tveimur áratugum, þá aðeins 22 ára gamall. Kasparov lét hafa þetta eftir sér daginn eftir að alþjóðlega skákmótinu í Linares á Spáni lauk á fimmtudag. Vann hann mótið, þrátt fyrir að tapa síðustu skákinni. Kasparov hefur verið stigahæsti skákmaður heims frá því árið 1984 og hefur markað sér öruggan sess sem einn besti skákmaður allra tíma. "Fyrir þetta skákmót tók ég meðvitaða ákvörðun um að Linares 2005 yrði síðasta atvinnuskákmótið sem ég tæki þátt í," sagði Kasparov á blaðamannafundi sem sjá má á myndbandi sem vistað er hjá skákvefritinu chessbase.com. Hann gaf þá ástæðu að það væri ekki lengur að neinu að stefna fyrir sig á þessum vettvangi. Friðrik Ólafsson stórmeistari segir í samtali við Fréttablaðið að mikil eftirsjá sé að Kasparov úr atvinnuskákinni - ef rétt reynist að hann sé hættur. "Ég tel bara ekki tímabært að tala um hann sem hættan. Það eru ýmis dæmi um að menn lýsi svona yfir en hætti svo við að hætta," segir Friðrik, en að hans mati er Kasparov langöflugasti og litríkasti skákmaður sem fram hefur komið frá því Bobby Fischer var upp á sitt besta. Kasparov lýsti því síðan yfir í gær að hann hygðist láta meira að sér kveða í rússneskum stjórnmálum. Hann hefur skipað sér í flokk með félagsskap sem nefnist "2008-nefndin: frjálst val", en í honum eru nokkrir einörðustu gagnrýnendur Vladimírs Pútín forseta úr liði frjálslyndra í Rússlandi. "Sem skákmaður hef ég gert allt sem hægt er og jafnvel meira en það. Nú vil ég beita greind minni og skipulagðri hugsun í rússneskum stjórnmálum," segir hann í yfirlýsingu sem Interfax-fréttastofan vitnar til. "Ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að spyrna við alræðisstjórnarháttum Pútíns. Það er mjög erfitt að tefla fyrir land sem lýtur andlýðræðislegri stjórn," segir Kasparov.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×