Sport

Vika í miðasölu á HM2006

Mánudagurinn 24. janúar 2005 er rauður dagur í dagatali knattspyrnuunnenda um allan heim. Á morgun verða gefnar út allar upplýsingar um miðasölu sem hefst 1. febrúar n.k. á leiki í heimsmeistarakeppninni sem fram fer í Þýskalandi á næsta ári. Allur undirbúningur skipuleggjenda er á áætlun og er reiknað með að samanlagður sætafjöldi á öllum leikjum keppninnar verði 3.2 milljónir talsins. Sá sætafjöldi verður þó ekki endanlegur þar sem eftir á að draga frá vegna aðstöðu fjölmiðlafólks, kostunaraðila og boðsgesta. Miðaverð hefur verið ákveðið en miðinn á leik í HM 2006 mun kosta á bilinu 35 evrur (um 3.000 ísl. kr) í ódýrustu sætin í riðlakeppninni upp í 600 evrur (50.000 ísl. kr) í bestu sætin í sjálfum úrslitaleiknum. Sami aðili má ekki kaupa fleiri en 4 miða á hvern leik sem gerir mest 28 miða á 7 leiki. Sölufyrirkomulagið verður óvenjulegt í þetta sinn að því leyti að notast á við lottófyrirkomulagið við að útdeila miðunum, svo nú snýst málið ekki um að fyrstur fái sem fyrstur kemur. Skipuleggjendur segja þetta gert til að koma í veg fyrir að heimasíða keppninnar láti undan álagi daginn sem miðasalan hefst á Netinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×