Innlent

Nýr listdansskóli undir forystu Ástrósar Gunnarsdóttur

Menntamálaráðherra undirritar á morgun samning um nýjan listdansskóla sem Ástrós Gunnarsdóttir, dansari og dansahöfundur, fer fyrir. Nýja skólanum er ætlað að leysa af hólmi Listdansskóla Íslands sem á að leggja á niður vor.

Nemendur við Listdansskóla Íslands hafa lengi beðið eftir svörum frá menntamálaráðherra um það hvað eigi að koma í stað Listdansskóla Íslands sem hættir störfum eftir að yfirstandandi starfsári lýkur. Vitað var að menntamálaráðuneytið ætti í viðræðum við einhvern aðila um að taka að sér listdansnámið og Ástrós Gunnarsdóttir, dansari og kennari við Listdanskóla Íslands, staðfesti við fréttastofu NFS að hún væri sá aðili.

Að sögn Ástrósar verður skólinn að hluta til einkarekinn en ríkið mun þó einnig leggja honum til fé. Ástrós vildi ekki gefa upp hversu mikið það væri. Þá sagði hún ekki ljóst hvort innheimt yrðu skólagjöld fyrir námið en hún benti á að í Listdansskóla Íslands væru innheimt gjöld, tíu þúsund krónur á mánuði í framhaldsdeild og á bili sjö til átta þúsund í grunnskóladeild.

Ástrós sagði óráðið hvernig kennslu yrði háttað í skólanum og hvort byggt yrði á grunni Listdansskóla Íslands. Verið væri að vinna í þeim málum sem og fyrirkomulagi skólans. Aðspurð sagðist hún vona að núverandi nemendur Listdansskóla Íslands kæmu í nýja skólann næsta haust enda skipti miklu máli að halda áfram að mennta góða og hæfa dansara hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×