Innlent

Roger Moore kynnti hæsta framlag íslenskra fyrirtækja til þróunarhjálpar

MYND/Getty Images

Þrjú íslensk stórfyrirtæki ætla að veita Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, 135 milljónir króna í styrk til þróunarhjálpar í Afríkuríkinu Gínea-Bissá. Þetta er hæsta framlag íslenskra fyrirtækja til þróunarhjálpar sem veitt hefur verið. Sir Roger Moore, velgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna, kom hingað til lands af þessu tilefni.

Tilkynnt var um styrkveitinguna á blaðamannafundi í beinni útsendingu á NFS á Nordica-hótelinu klukkan tíu í morgun. Fyrirtækin sem gefa milljónirnar 135 eru Baugur, FL Group og Fons og mun hvert þeirra veita 15 milljónir á ári í verkefnið, næstu þrjú ár. Upphæðin á að fara til menntamála í Gíneu-Bissá, og þá sérstaklega til að auka menntun stúlkna og til að eyða kynjamismunun. Upphæðin dugar til að veita um hundrað þúsund börnum í landinu menntun.

Sir Roger Moore, sem er best þekktur fyrir leik sinn á ofurnjósnaranum James Bond, var mættur á Nordica í morgun til að votta fjárstuðninginn fyrir hönd Barnahjálparinnar en hann er velgjörðarsendiherra UNICEF. Moore sagði meðal annars að í Biblíunni segi að sælla sé að gefa en þiggja og því hljóti fulltrúum fyrirtækjanna þriggja að hafa liðið afar vel við undirritunina. Leikarinn fullyrti svo að honum liði enn betur en þeim þar sem hann væri fulltrúi barnanna sem munu njóta góðs af fénu, og því ættu þessi orð úr Biblíunni ekki alltaf við. 

Ein af myndunum um OO7 með Moore í aðalhlutverki, var að hluta til mynduð hér á landi. Það var myndin A View To a Kil, þar sem ofurnjósnarinn sést skíða niður Vatnajökul með rússneska morðhunda á hælunum. Moore kom þó aldrei hingað til lands vegna myndarinnar. Hann hefur nú að mestu lagt kvikmyndaleik á hilluna og einbeitir sér að starfi sínu fyrir Barnahjálpina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×