Erlent

Innan marka tjáningarfrelsis

Åke Green. Hvítasunnusafnaðarpresturinn Åke Green mætir í Hæstarétt Svíþjóðar í Stokkhólmi þegar réttarhöldin í máli hans þar hófust hinn 9. nóvember síðastliðinn.
Åke Green. Hvítasunnusafnaðarpresturinn Åke Green mætir í Hæstarétt Svíþjóðar í Stokkhólmi þegar réttarhöldin í máli hans þar hófust hinn 9. nóvember síðastliðinn.

Prestur í sænskum hvítasunnusöfnuði, sem í stólræðu líkti samkynhneigð við "krabbameinsæxli á þjóðarlíkamanum", hét því í gær að hann væri hættur að skammast út í homma eftir að Hæstiréttur Svíþjóðar sýknaði hann af ákæru um brot á ströngum lögum gegn hatursáróðri.

Hæstiréttur í Stokkhólmi komst að þeirri niðurstöðu að hin umdeilda stólræða prestsins Åke Green, sem haldin var fyrir tveimur árum, félli innan marka laga um tjáningarfrelsi sem væru í samræmi við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. "Þetta er frábært fyrir trú- og tjáningarfrelsið," sagði Green í símaviðtali við AP frá heimili sínu á eynni Öland.

"Það er stórkostleg tilfinning að við skulum fá að hafa það frelsi í friði." Með dómnum er bundinn endi á málaferli sem stóðu yfir í tvö ár og vöktu athygli bæði innan Svíþjóðar og utan, en í þeim var tekist á um mörk tjáningarfrelsis og réttar minnihlutahópa til lagaverndar gegn hatursáróðri.

Saksóknarar sögðust virða dóm Hæstaréttar og að hann vekti athygli á að dómstólum bæri að taka tillit til evrópska sáttmála og slíkra lagalega skuldbindandi alþjóðasamninga. Gagnrýnendur sögðu niðurstöðuna til þess fallna að opna allar gáttir fyrir svæsið orðbragð á opinberum vettvangi í garð samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×