Innlent

Breytingar í ríkisstjórninni

Davíð Oddsson utanríkisráðherra lætur af embætti á ríkisráðsfundi, sem haldinn verður á Bessastöðum klukkan tvö í dag. Geir H. Haarde fjármálaráðherra tekur við embætti utanríkisráðherra af Davíð, en hann hefur verið ráðinn seðlabankastjóri til næstu sjö ára og tekur við því embætti 20. október næstkomandi. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra tekur við embætti fjármálaráðherra af Geir. Einar K. Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tekur við embætti sjávarútvegsráðherra af Árna. Á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í gær var ákveðið að Halldór Blöndal yrði formaður utanríkismálanefndar alþingis í stað Sólveigar Pétursdóttur sem tekur við af Halldóri sem forseti alþingis. Á þingsflokksfundinum var einnig ákveðið að Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tæki við þingflokksformennsku af Einari K. Guðfinnssyni verðandi sjávarútvegsráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×